Raforkukerfi Íslands er sérstakt fyrir þá staðreynd að hérlendis er allt rafmagn framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e.a.s. vatni og jarðvarma. Ekkert dæmi er um kerfi af þessu tagi annars staðar í heiminum. Þessar séríslensku aðstæður gera það að verkum að náttúruöflin hafa meiri áhrif á viðskipti með rafmagn, og þar með raforkuverð, en annars staðar. Þannig er rafmagn á Íslandi að jafnaði ódýrara á sumrin þegar nægt vatn flæðir til vatnsaflsvirkjana landsins. Á veturna stöðvast þetta rennsli að miklum hluta þegar frýs á hálendinu. Rafmagn sem afhent er að vetri til er því yfirleitt dýrara þegar ganga þarf á vatnsforða í uppistöðulónum til að framleiða það. Verðmunurinn fer fyrst og fremst eftir því hversu snemma haustar, hversu kaldur veturinn er og hvenær vorar á ný.
Erlendis sveiflast raforkuverð ekki eftir náttúrunni á sama hátt og á Íslandi. Þessi í stað hafa alþjóðastjórnmál og ýmsar aðstæður í viðskiptalífinu ráðandi áhrif á verð á rafmagni í gegnum heimsmarkaðsverð á öðrum orkugjöfum, þ.e. kolum, gasi og olíu. Sveiflurnar í verði geta verið verulegar á milli mánaða. Til lengri tíma gerir óvissan um framboð á þessum orkugjöfum það að verkum að það getur verið erfitt og/eða dýrt að gera langtíma samninga um raforkukaup erlendis.
Í þessum samanburði kemur annað einkenni íslenska raforkukerfisins í ljós: Hér er engin óvissa um hvaðan orkugjafarnir koma. Rigning og snjór munu falla næstu áratugi og jarðhiti brjótast upp að yfirborði landsins sömuleiðis. Af þessum sökum geta íslensk orkufyrirtæki gert raforkusamninga til mun lengri tíma en tíðkast erlendis án þess að því fylgi mikil fjárhagsleg áhætta. Í þessu felst mikið samkeppnisforskot fyrir íslenskt efnahagslíf.
Á Íslandi eru framleidd um 20 TWst af rafmagni árlega. Stærstu framleiðendurnir eru Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og HS Orka. Stórnotendur nota meirihluta raforkunnar en um 20% fara á almennan markað, þ.e. til heimila og fyrirtækja.
Nokkur sölufyrirtæki selja rafmagn á almenna markaðnum. Sum þeirra eru með eigin framleiðslu en flest kaupa auk þess rafmagn á heildsölumarkaði.
Viðskiptum með rafmagn er skipt upp eftir afhendingarklukkustundum. Þannig eru viðskipti með 24 aðskildar afhendingarklukkustundir á hverjum sólarhring. Fjöldinn vex hratt því það eru 8760 klukkustundir í venjulegu ári sem síðan margfaldast eftir því sem viðskipti eiga sér stað fleiri ár fram í tímann. Þessi mikli fjöldi af aðskildum „raforkuvörum“ er eitt af sérkennum raforkuviðskipta. Hver afhendingarklukkustund er keypt og seld á verði sem er aðgreint frá öðrum klukkustundum.
Til þess að auðvelda viðskipti með rafmagn er það oft selt í „blokkum“ þar sem margar afhendingarklukkustundir eru seldar í einu. Hérlendis hefur lengi tíðkast að rafmagn sé selt í heilan mánuð eða heilt ár í senn. Í þeim tilfellum þarf að tilgreina nákvæmlega hvaða mánuð og ár viðskiptin ná til. Rafmagn sem keypt er fyrir júní 2026 fæst hvorki afhent fyrir né eftir þann mánuð.
Í tvíhliða samningum milli kaupanda og seljanda er aðilum frjálst að bæta við ákvæðum eins og þeim hentar hverju sinni, s.s. um sveigjaleika í afhendingu, greiðsluskilmála, force majeure o.fl. Þegar rafmagn er tekið til viðskipta á skipulegum raforkumarkaði þarf hins vegar að staðla samninga til þess að aðilar viti fyrirfram að hverju þeir ganga og þeir geti treyst því að hægt sé að kaupa og selja rafmagnið síðar með sömu samningsskilmálum.
Vonarskarð heldur vikuleg söluferli á rafmagni á heildsölumarkaði. Í söluferlinu senda þátttakendur inn kaup- og sölutilboð í mismunandi tegundir af raforkuvörum. Þegar tilboðin liggja fyrir eru þau borin saman og viðskiptum úthlutað á milli þátttakenda.
Raforkuvörurnar sem um ræðir eru eftirfarandi:
Grunnorka er rafmagn sem afhent er í heilt ár í senn. Afhendingin er jöfn fyrir allar klukkustundir sólarhringsins. Grunnorka fyrir hvert ár næstu 5 árin eru í boði á raforkumarkaðnum. Viðskipti með grunnorkusamninga fara fram einu sinni í mánuði.
Mánaðarblokk er rafmagn sem er afhent í mánuð í senn. Aftur er afhendingin jöfn allar klukkustundir mánaðarins. Mánaðarblokkir fyrir næstu 16 mánuði eru í boði á raforkumarkaðnum. Viðskipti með mánaðarblokkir fara fram einu sinni í mánuði.
Stundarrafmagn er rafmagn sem afhent á ákveðinni klukkustund. Viðskipti með stundarrafmagn eiga sér stað daglega á raforkumarkaðnum þar sem afhending á sér stað næstu daga á eftir.
Í sumum tilfellum eru fleiri raforkuvörur til sölu eftir áhuga þátttakenda hverju sinni.
Í lok hvers söluferlis liggur fyrir markaðsverð á hverri raforkuvöru ásamt magni viðskipta. Auk þess tekur Vonarskarð saman framboð og eftirspurn eftir hverri raforkuvöru um sig.
Þátttakendur á raforkumarkaði Vonarskarðs þurfa að hafa leyfi frá Orkustofnun til að stunda raforkuviðskipti og samning við Landsnet um jöfnunarábyrgð. Eftirfarandi fyrirtæki eru þátttakendur:
Markmið Vonarskarðs er að kostnaður við rekstur raforkumarkaðarins fari ekki yfir 3 milljónir króna á mánuði. Til þess að lágmarka kostnað er mest af vinnu við markaðinn úthýst s.s. vegna upplýsingatæknimála og lögfræðiþjónustu.
Vonarskarð hefur samið við þátttakendur um að kostnaðurinn við rekstur markaðarins skiptist á milli þeirra í takt við veltu hvers um sig. Skipting kostnaðar er endurskoðuð á 6 mánaða fresti.