3. mars 2025 - Í morgun hóf Vonarskarð rekstur svokallaðs næstadagsmarkaðar fyrir heildsöluviðskipti með rafmagn. Á markaðnum verða haldin söluferli kl. 10 alla daga vikunnar þar sem orkufyrirtæki gera tilboð í rafmagn sem er afhent daginn eftir. Viðskipti eiga sér stað með einstakar afhendingarklukkustundir sólarhringsins fyrir komandi daga. Næstadagsmarkaður Vonarskarðs er settur upp að evrópskri fyrirmynd en smæð íslenska raforkukerfisins og kostnaður hafa tafið fyrir því að hann hafi komist í rekstur hérlendis fyrr en nú.
Markmiðið með daglegum viðskiptum er að bæta orkunýtingu raforkukerfisins í heild sinni með því að bjóða orkufyrirtækjum möguleikann á tíðari viðskiptum sín á milli.
Samhliða þessari breytingu mun Vonarskarð hætta að birta sérstakar tilkynningar um niðurstöður söluferla næstadagsmarkaðar á forsíðu heimasíðunnar. Niðurstöðurnar verða áfram birtar á undirsíðunni markaðsgögn.