15. apríl 2024 - Vonarskarð hóf í dag rekstur á fyrsta skipulega raforkumarkaði landsins. Verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarna mánuði en Vonarskarð fékk leyfi Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til reksturs raforkumarkaðar í desember 2023.
Eftirspurn eftir rafmagni hérlendis hefur aukist á undanförnum árum og áfram er spáð vexti í raforkunotkun. Raforkumarkaði Vonaskarðs er ætlað að tryggja orkuöryggi fyrir einstaklinga og fyrirtæki með því að auka gagnsæi í verðlagningu og auðvelda viðskipti á markaðnum.
Raforkumarkaðurinn mun einfalda innkaup á rafmagni, sérstaklega fyrir opinber fyrirtæki og stofnanir sem hafa hingað til þurfa að bjóða út raforkukaup sín til að uppfylla kröfur laga. Með tilkomu raforkumarkaðarins geta þessir aðilar keypt rafmagn af markaðnum í staðinn.
Vonarskarð hefur undanfarna mánuði unnið náið með orkufyrirtækjum landsins að útfærslu markaðarins og í framhaldi af því var ákveðið að í upphafi færu fram vikuleg uppboð á rafmagni. Þetta er einfalt fyrirkomulag sem lágmarkar jafnframt kostnaðinn við rekstur raforkumarkaðarins.
Þátttakendur á markaðnum frá upphafi eru öll orkufyrirtæki landsins að Landsvirkjun undanskilinni sem stendur í skerðingum vegna slæmrar vatnsstöðu í uppistöðulónum fyrirtækisins.