20. desember 2023 - Vonarskarð ehf. fekk í dag úthlutað leyfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis til reksturs raforkumarkaðar í samræmi við raforkulög nr. 65/2003.
Samkvæmt leyfinu er Vonarskarði heimilt halda söluferli á rafmagni á heildsölumarkaði þar sem þátttakendur gefa til kynna áhuga á að kaupa og selja rafmagn með nafnlausum hætti. Söluferlin verða haldin reglulega og ná til afhendingar á raforku nokkur ár fram í tímann. Þátttaka er bundin við fyrirtæki sem hafa leyfi til að stunda raforkuviðskipti og hafa gert samning við Landsnet um jöfnunarábyrgð. Auk þess getur flutningsfyrirtæki raforku, Landsnet, tekið þátt á raforkumarkaðnum.
Vonarskarð var stofnað árið 2022 og hefur sérhæft sig í viðskiptum með rafmagn á Íslandi. Markmið fyrirtækisins er að aðstoða orkufyrirtæki að bregðast við þróun sem er að eiga sér stað í eftirspurn og framboði rafmagns hérlendis.
Tilgangur Vonarskarðs með rekstri raforkumarkaðarins er eftirfarandi:
Skýra betur framboð og eftirspurn eftir rafmagni,
Bæta sýnileika í verðmyndum með rafmagn,
Veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi þróun markaðar með raforku, og
Veita mikilvægar upplýsingar fyrir umræðu um orkuöryggi.
Vonarskarð mun á næstu vikum vinna með orkufyrirtækjum hérlendis við nánari útfærslu raforkumarkaðarins. Stefnt er að því hefja rekstur hans vorið 2024.